Ég fór í Þórsmörk með pabba síðasta föstudag. Upphaflega átti að ganga Fimmvörðuháls en fallið frá því af því að veðurspáin var ekki góð. Í staðinn var farið inn í Bása í Þórsmörk og gengið þar. Við komum klukkan 11 að kvöldinu og fengum smá hressingu og svo var lagt í göngu. (Þekking á staðháttum í Þórsmörk æskileg fyrir næstu setningar)Veðrið var ekkert sérlega spennandi. Mikil rigning og töluverður vindur, en við vorum ekki að láta þetta trufla okkur enda vel búnir. Við fórum í Strákagil og fórum þar upp, yfir Kattarhrygg, upp á Morinsheiði. Veðrið var alls ekki gott en það var hlýtt. Hvassviðrið upp á Morinsheiði var svakalegt og varla að maður stóð í lappirnar. Þarna voru menn eiginlega frekar sáttir við að ekki var farið á Fimmvörðuhálsinn því veðrið var verra þar. Við gengum svo að Heljarkambi og fórum þar niður inn í Hvannárgil. Sú leið var frábær. Frekar bratt en mögnuð náttúra. Við komum niður í Bása rúmlega 5 um morguninn. Þar tóku Útivistarmenn á móti okkur með kjötsúpu og brauð. Alls fóru um 200 manns í þessa göngu og var þeim skipt í 3 hópa. Ég var í seinasta hópnum.Alveg frábært. Reyndar gaf sig eitt stykki hné hjá undirrituðum en gleðin deyfði óþægindin. Við pabbi vorum svo búnir að tjalda og sofnaðir um 7 leytið. Við vöknuðum um tólfleytið og fengum kaffi í skálanum hjá Útivist. Svo var farið að hjálpa til með kvöldmatinn. Við hjálpuðum til við að tjalda stóru tjaldi sem rúmar um 300 manns. Þetta gekk ekkert sérlega vel og "margir verkstjórar" á staðnum. En upp fór tjaldið og vegna vindsins þá voru frekar dýrir tjaldhælar notaðir. Alla vegana 3 jeppar og einn vörubíll. Svo voru ýmsar tilfæringar við að halda tjaldsúlum niðri og er eiginlega ekki hægt að lýsa því með orðum. En tjaldið stóð. Svo var farið í að elda ofan í 300 manns. Tvær stórar holur voru grafnar við veginn og fylltar með kolum. Ofan á heit kolin voru sett einhver ósköp af lambalærum. Á rétt tæpum klukkutíma tókst svo með afburðaskipulagningu að gefa um 300 manns að borða. Stemmingin var meiriháttar og mikið spilað og sungið. Seinna um laugardagskvöldið fórum við Pabbi svo í bústaðinn hans og vorum þar í nótt.
Þessi ferð var alveg frábær þó að maður færi nú ekki yfir Fimmvörðuhálsinn. Þó að veðrið hafi verið slæmt þá létum við okkur hafa það og sér ekki nokkur eftir því. Ef þið hafið tækifæri á að fara í svona ferð þá skulið þið ekki hika.
kveðja,
Arnar Thor
PS. Sólrún er byrjuð að blogga
Þessi ferð var alveg frábær þó að maður færi nú ekki yfir Fimmvörðuhálsinn. Þó að veðrið hafi verið slæmt þá létum við okkur hafa það og sér ekki nokkur eftir því. Ef þið hafið tækifæri á að fara í svona ferð þá skulið þið ekki hika.
kveðja,
Arnar Thor
PS. Sólrún er byrjuð að blogga
Ummæli